Monday, December 3, 2012

Trans - hvað er nú það?

Hvað er það að vera Trans?

“Ég vil ekki móðga þig, en má ég spyrja hvort þú vilt að ég segi við þig hann eða hún?”

Þetta er algeng spurning sem ég fæ oft. Undanfarið hef ég notið þeirrar blessunar að kynnast fjöldanum öllum af fólki og eignast nýja vini og kunningja. Ég er farin að starfa á nýjum vettvangi og þess vegna langar mig að skrifa hér nokkur orð til að reyna að útskýra hvað það er að v
era transmanneskja; alla vega hvað það er og þýðir í mínu tilfelli.
Aum - Tailenskur stelpustrákur.

Það er eðlilegt að manneskja sem ekki auðvelt er að staðsetja í megin staðalímynd samfélagsins geti vakið hjá fólki spurningar og óöryggi. Það sæi ég gjarna að þessi skrif mín myndu svara einhverjum spurningum sem eðlilega vakna og að þessi skrif eyði því óöryggi og vandræðalegheitum sem ég sé oft hjá fólki þegar það á við mig, eða mína líka, samskipti. Sömuleiðis vil ég skrifa þessi orð til höfuðs fordómum, sem ég verð gjarna fyrir. Fordómar eru yfirleitt byggðir á vanþekkingu og vegna þess að fólk á erfitt með að setja sig í annarra spor. Það er staðreynd að fordómum mæti ég oft hjá fólki sem jafnvel gerir sér ekki grein fyrir því að það búi yfir þeim og ætli sér alls ekki að móðga eða koma illa fram. Ég vona að þessi skrif hjálpi til við að gera lífið betra og fallegra fyrir okkur öll.

Hvað það er að vera transmanneskja á sér ekki einfalda skýringu. Ég get aðeins reynt að útskýra hvað það þýðir í mínu tilfelli og komið því á framfæri sem ég hef kynnt mér um þetta málefni og tjáð mig um mína reynslu og upplifun.

Móðir mín fæddi lítinn strák og foreldrar mínir gáfu mér sitt hvort nafnið - sitt hvort stráka nafnið. Þegar við erum börn erum við andlega heilbrigð. Við erum alls ekkert að velta því fyrir okkur hvort við erum strákar eða stelpur. Við erum bara krakkar. Því miður, og allt of fljótt, lærum við að strákar eigi að haga sér svona en stelpur hinsegin. Strákar eigi að klæðast bláu en stelpur rauðu o.s.frv. Smám saman er þeirri hugmynd komið inn í kollin á okkur að á kynjunum sé einhver grundvallarmunur og það löngu áður en kynþroskinn gerir á okkur þann líkamlega mun sem óneitanlega er á körlum og konum. Við lærum fljótt að á körlum og konum, á stelpum og strákum, sé ekki bara líkamlegur munur, heldur lærum við einnig að á kynjunum sé munur sem sé ekki líkamlegs eðlis heldur af því tagi sem kallast verður ólíkamlegur; eitthvað sem mætti skilja sem andlegur, hugrænn eða sálrænn munur*. Í ljósi þess síðarnefnda er kynjunum ætlað mismunandi hlutverk í samfélaginu. Kvenhlutverk og karlhlutverk, sem hafa ekkert með þann líkamleg mun sem á kynjunum er að gera.

Hvar við pössum inn í þessi lærðu kynjahlutverk hefur ekkert, að mínu áliti, með það að gera hvort við erum fædd með typpi eða píku. Samkvæmt minni reynslu og athugunum hefur það allt að gera með það hvernig við hugsum og upplifum lífið; það hefur m.ö.o. miklu meira með heilabúið að gera en æxlunarfærin eða hormónastarfsemi. En vera má að það hafi mestan part að gera með okkar anda eða sál. Sum okkar eru mýkri og fínlegri en önnur, sum hafa meiri þörf til að tjá sig með klæðaburði og skrauti en önnur, sum hafa áhuga á húsbyggingum en önnur á húsaskreytingum. Þessi munur, virðist mér, vera meðfæddur. Hvað af þessu telst til karlskyns hlutverka og hvað til kvenskyns hefur þróast með samfélaginu í gegnum kynslóðirnar. Þetta getur verið verulega breytilegt frá einu samfélagsformi til annars. Einnig eru þessar flokkanir og skilgreiningar breytilegar frá einum tíma til annars. Þannig eru til að mynda til samfélög þar sem það þykir mikið karlmennskutákn að skreyta sig mikið og mála sig um augu og varir en kvenlegt að vera algerlega laus við allt skraut og annað “make-up”. Hvað telst kvenlegt og hvað karllegt er því algerlega lærð skoðun. Nú vill svo til að einhver okkar samsama sig engan vegin því að falla inn í og samþykkja, fyrir sitt persónulega leiti, að fylgja skoðunum samfélagsins í þessum efnum. Transfólk er einn sá hópur sem alls ekki getur sætt sig við þessar aðgreiningar og finnst það einfaldlega hafa fæðst inn í rangan hóp; rangan kynja-hóp.

Þannig er þessu til að mynda farið með mig. Fyrir mér er það mun eðlilegra, og mér líður sem mun heilsteyptari manneskju, ef að ég er innan um kvenfólk. Ég samsama mig mun betur með kvenfólki sem hóp en með karlmönnum. Þegar ég lifi og hrærist í þeim gildum sem kvenfólki eru uppálögð er lífið mér mun auðveldara og “meikar meiri sens”. Innan um karlmenn og karllæg gildi er ég aftur á móti eins og álfur út úr hól.

Ég hef alltaf átt erfitt með að passa inn í það karl-hlutverk sem mitt samfélag hefur þróað. Ég reyndi, og til að skera mig ekki úr fór ég lengi vel út í talsverðar öfgar í karlmennskuhlutverkinu. Fór til sjós, vann við löndun og reyndi allt hvað ég gat til þess að vera “einn af strákunum”. Þetta var sú sýn sem ég varpaði af mér út á við; harðjaxl og töffari. Inn í mér var ég alls ekki þessi manneskja. Mér leið illa og var í ósátt við mitt sjálf og mitt umhverfi; ég var í endalausri uppreisn.

Hver er þá ég? Er ég karl eða kona?

Ég er hvorugt, eða bæði. Stundum hef ég reynt að útskýra mig sem “uni-sexual”. Best þykir mér að segja að ég sé einfaldlega Trans. Stundum hef ég sagt, þó meira í hálfkæringi en fullri alvöru, að ég sé trans-sexual og þá skilgreint orðið “trans” sem “yfir” og að ég sé þ.a.l. yfir-kyn, nú eða hreinlega yfir þessa kyngreiningu hafin. Ástæða þess að ég get samsamað mig hvorugu kyninu er vegna þess að ég bý í karlmannslíkama en ÉG er miklu nær því að vera kona en nokkurn tíma karl.

Um daginn átti ég spjall við mann einn sem mér er kær um þetta málefni. Ég spurði hvort hann upplifði mig sem karl eða konu. Hann átti erfitt með að svara þessu, hugsanlega vegna þess að hann vildi ekki móðga mig, en sagði diplómatískt að hann sæi í mér bæði karl og konu.
Ég spurði hann þá um ákveðna transmanneskju sem þekkt er í íslensku samfélagi (við skulum kalla hana Söru Vand). Þessi manneskja hefur farið í gegnum, það sem kallað er kynleiðréttingarferli, sem felur í sér hormónameðferð og skurðaðgerð á kynfærum í því skyni að gera útlit líkamans líkari því kyni sem manneskjan upplifir sig sem. Ég spurði vinn minn hvort hann liti á Söru Vand sem karl eða konu. Þessi vinur minn átti í engum vandræðum með að segja að þessi ákveðna transmanneskja væri kona – “hún hefur farið í aðgerð og látið fjarlægja karlkynfærin”.
Þá spurði ég hvort ég væri ekki sama manneskjan ef að á mig vantaði handlegg eða hvort ég væri ekki samt sem áður jafnmikið ég. Hann sagði að ég væri enn þá jafn mikið ég. Þá spurði ég hvort ég væri þá ekki jafn mikið ég þó að á mig vantaði alla útlimi og hann gaf mér sama svar – ég væri enn þá ég þó að á mig vantaði alla útlimi.
Ég benti honum þá á að transmanneskjur væru margar og mismunandi. Til dæmis eru til einstaklingar sem fara einungis að hluta til í kynleiðréttingu. Til væru transmanneskjur sem væru með brjóst, skegglausar, á ytra borðinu litu þessar manneskjur út eins og konur en samt væru þær með typpi. Ég sýndi honum myndir af slíkum manneskjum og hann sagði að myndirnar sýndu konur þó að þær væru með typpi.
Ástæða þess að ég var að fara þessa leið í samræðunni var til að reyna að benda á að tilvera ákveðinna líkamsparta hefði ekkert með það að gera hvort manneskjan upplifi sig sem karl eða konu og jafnvel ekki á upplifun þessa vinar míns á því.
Sömuleiðis erum við ennþá sömu manneskjurnar þó að læknar hafi fjarlægt einhvern hluta líkama okkar. Sara Vand hafi alltaf litið á sig fremur sem konu en karl en Sara þurfti bara aðstoð læknisfræðinnar til að þessi vinur minn gæti samþykkt þessa upplifun hennar.
Ég spurði þá vinn minn hvort hann teldi að skurðaðgerð læknisins hefði breytt Söru Vand í konu eða hvort honum þætti nú líklegra að Sara Vand hefði alltaf verið kona en skurðaðgerðin hefði miklu fremur hjálpað honum og samfélaginu að upplifa Söru Vand sem konu fremur en karl. Þessi kæri vinur minn sá nú að það var mun líklegra að Sara hafi alltaf verið kona og skurðaðgerð læknisins hefði í raun aðeins breytt því hvernig aðrir upplifðu hana.

Þá lá beinast við að spyrja þennan góða vinn minn á ný: “Er ég kona eða karl?”; og í þetta sinn fékk ég ákveðið svar: “Þóra mín, þú ert kona.”

“Já” sagði ég “þú mátt alveg segja það en ég er nú samt sem áður Trans – ekki kona. Þú mátt segja það vegna þess að ég er miklu fremur kona en karl. Það er vegna þess að ég er ekki líkami minn, ekki frekar en er hönd mín eða fótur. Ég hef hendur, fætur og kynfæri – en ég er ekki þetta.
Sömuleiðis er Sara Vand Trans en ekki kona. Málið er bara, minn kæri vinur, að ég og Sara Vand erum transmanneskjur og í rauninni hvorki konur né karlar – alla vega ekki í neinum hefðbundnum skilningi. Ég og Sara Vand erum algerlega eins að því leiti að við erum transmanneskjur. Á okkur er bara sá munur að Sara Vand hefur ákveðið að fá notið aðstoðar læknisfræðinnar til að upplifa meiri samræmingu milli þess sem hún er og þess sem þú sérð. Ég aftur á móti hef ákveðið að lifa sem transmannesja í (að mestu) óbreyttum þeim líkama sem ég fæddist í. Ég kýs að klæða mig og tjá mig á ákveðin hátt sem samfélagið týpískt stimplar sem kvenlegt. Sumar transmanneskjur vilja fara lengra og vilja breyta líkama sýnum, sú ákvörðun breytir þeim ekki í konur eða karla heldur einungis upplifun annarra á þessum sömu manneskjum.
Þú, minn kæri vinur, og flestir aðrir eigið í litlum vandræðum með að sjá Söru Vand sem konu en í miklum vandræðum með að sjá mig annað en karl, þó er á okkur engin eðlismunur. Eini munurinn er líkamlegur ytri munur og fyrir mér, sambærilegur munur og að önnur okkar er dökkhærð en hin ljóshærð. Ég díla bara við sama mál og Sara Vand á annan hátt en hún – það gerir hana á engan hátt fremur að konu en mig.”

Til að draga þetta saman þá vil ég benda á þau tvö atriði sem skipta máli hvað varðar það að vera transmanneskja.

Í fyrsta lagi eru staðalímyndir samfélagsins um hvað það er að vera karl og kona. Ef að einhver spyr mig hvort viðkomandi eigi að ávarpa mig sem karl eða konu svara ég gjarna (þar sem fólk ætlast til þess að ég velji annað hvort) að ég sé miklu meira kona. Það er vegna þess að ég samsama mig miklu fremur þeim gildum sem samfélagið hefur stimplað sem kvenleg. Ég þrái og þarf að fá að sýna tilfinningar mínar, ég er á allan hátt, og þrátt fyrir að vera í karlmannslíkama, einnig líkamlega, ákaflega kvenleg manneskja. Samfélagið hefur flokkað ákveðin gildi sem kvenleg og önnur sem karlleg – það hefur ekkert með líkama okkar að gera. Hvar við pössum inn í þessa flokkun hefur allt með hugsun okkar að gera; hug okkar eða sál. Í stað þess að tala um kvenlegt og karllegt er mér tamara að tala um fínlegt og gróft. Þannig er ég ákaflega fínlegur karl eða barasta svolítið grófgerð kona.

Hitt atriðið sem hafa ber í huga er hvað það er að vera manneskja. Fyrir mér erum við ekki líkamar okkar, heldur búum við í þeim. Líkamar okkar eru margvíslegir og mismunandi. En sá andi, sál, hugur, sem í þeim býr einskorðast ekki, að mínu viti, af þeim eða því kyni sem tilviljunin ein virðist hafa úthlutað þeim. Ef að við skoðum dýraríkið, sérstaklega kaldblæðinga t.d. krókódíla, þá sjáum við að kyn þeirra ákvarðast af því hitastigi sem er í hreiðrinu þegar þeir eru að enn í eggi. Mannfólkið er spendýr en ég fæ ekki séð neina ástæðu fyrir því að kyn okkar sem einstaklinga, ákvarðist af einhverri annarri grundvallarástæðu en einhverju tilfallandi eins og t.d. hitastigi. Það er því fyrir mér auðvelt að sjá að líkamlegt kyn mitt er tilviljanakennt og ákvarðar ekki hver ég er – það gerir aftur á móti hugsun mín, hugur, sál eða andi.

Það eru margir sem geta séð það mjög auðveldlega að það er ekki það sama að vera kvenleg og vera með píku – svo einfalt er nú það!

Ég vona svo innilega að þetta hafi ekki verið óþarflega flókin útskýring þó að ég viðurkenni að málefnið geti talist flókið.

Tora Victoria

* Þetta hefur lengi reynst mér hin mesta ráðgáta. Vestræn hugsun hefur ekki skilgreint ákveðið hvað það er sem er manneskja og ekki fellur undir líkamann. Vísindin gera ráð fyrir að við séum bara líkamar okkar og allt sem við hugsum og upplifun sé afleiðing skynjunar og heilastarfsemi. Við höfum samt hugtök á borð við huga, sál og anda en það er tilviljanakennt og einstaklingsbundið hvað vil leggjum í þessi hugtök. Undanfarna áratugi hafa vísindin fært ákveðin rök fyrir svokölluðum kynja-heila. Það er talið að á kynjunum sé ákveðin munur á heila. Vísindamenn hafa svo gert rannsóknir á heila transfólks og bent á að einstaklingur sem fæðist sem t.d. karlmaður hafi kvenmannsheila og öfugt. Sú staðreynd að samfélög gefi sér að á kynjunum sé einhver óútskýrður munur annar en líkamlegur gæti útskýrst af kynjaheila en þessar rannsóknir eru einungis skammt á veg komnar og gefa vísbendingar en eru langt í frá einhver sönnun á tilvist kynjaheilans.
Ég lít svo á að ÉG búi í líkama sem er samansettur af líffærum svo hann geti starfað svo sem útlimum, hjarta og heila. Ég á mér líkama en er ekki líkami minn. Ég á mér einnig huga sem stjórnar þessum líkama og starfsemi hans. Ég aftur á móti er andi eða sál. Ég er í sjálfu sér kynlaus eins og erum við öll en samfélagið krefst þess að flokka mig eftir kyni, þessi flokkun fer fyrst of fremst eftir líkamanum en missir stundum marks eins og í mínu tilfelli og tilfellum transfólks yfirleitt.

Það er því ef til vill réttast að segja þetta svona:

Ég er karlkyns kona, ég er trans ég heiti Tora Victoria!

1 comment: